Erlent

Skattur á flugvélaeldsneyti

Þjóðverjar munu, í þessari viku, leggja til við fjármálaráðherra Evrópusambandsins að sérstakur skattur verði lagður á flugvélaeldsneyti. Það mun valda hækkun á flugfargjöldum. Búist er við að Þjóðverjar leggi til að þessi skattur verði 25 þúsund krónur á hvert tonn af flugvélaeldsneyti. Þessar skatttekjur eiga að renna til aðstoðar við fátækar þjóðir, einkum í Afríku. Fjármálaráðherrar Bretlands, Þýskalands, Frakklands og Ítalíu náðu samkomulagi um þennan skatt á fundi í Lundúnum fyrr í þessum mánuði og ætla nú að leggja til að hann verði tekinn upp í öllum aðildarríkjunum tuttugu og fimm. Flugfélög eru ekki hrifin af þessari hugmynd, enda verð á eldsneyti með því hæsta sem það hefur nokkru sinni verið. Þau sjá engan kost annan en að velta þessum skatti strax út í verðlagið og segja að það muni skekkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart flugfélögum í öðrum heimshlutum, eins og til dæmis í Bandaríkjunum. Þýska tímaritið Der Spiegel segir að góður stuðningur sé við þessa hugmynd innan Evrópusambandsins, nema hvað Írar séu henni andvígir. Samkvæmt lögum sambandsins hafa einstakar þjóðir neitunarvald þegar kemur að álagningu sameiginlegra skatta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×