Erlent

Vilja Rushdie enn feigan

Rithöfundurinn Salman Rushdie er enn á dauðalista öfgatrúaðra múslima í Íran að sögn talsmanns samtaka þeirra. Rushdie, sem af mörgum er talinn á meðal merkilegustu rithöfunda samtímans, lenti á þessum lista árið 1989 í kjölfar útgáfu skáldsögu hans, Söngvar Satans, þar sem hann þykir vega ómaklega að Kóraninum, hinu heilaga riti múslima, og Múhameð spámanni. Í kjölfarið lýsti þáverandi leiðtogi Írans, klerkurinn Ayatollah Khomeini, því yfir að rithöfundurinn væri réttdræpur og að múslimar skildu drepa hann ef færi gæfist. Áðurnefnd samtök segja, í skeyti sem þau sendu Reuters-fréttastofunni í tilefni að því að sextán ár eru liðin frá yfirlýsingu Kohmeinis, að Rushdie sé enn skotmark þeirra, enda sé ekki hægt að taka hann af aftökulistanum því hinn látni leiðtogi Írans sé sá eini sem geti tekið hann af honum. Rushdie er fæddur á Indlandi en hefur búið í útlegð í Bretlandi mörg undanfarin ár. Þess má geta að í fyrstu málsgrein Söngva Satans segir aðalsöguhetjan, Gibreel Farishta: „Til að endurfæðast verðurðu fyrst að deyja.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×