Erlent

Vopnahlé bætir hag Palestínumanna

Vopnahléið á milli Palestínumanna og Ísraela mun bæta hag Palestínumanna umtalsvert þegar byrjað verður að taka niður vegatálma sem hafa króað þá inni í fjögur ár. Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, segir að Ísraelar hafi fallist á að fjarlægja marga meiri háttar vegatálma sem lið í brottflutningi frá fimm borgum á Vesturbakkanum á næstu þremur vikum. Palestínskir lögreglumenn munu taka við öryggisgæslu þar sem Ísraelar hverfa á braut. Vegatálmar Ísraela, með tilheyrandi varðstöðvum, umkringja allar borgir á Vesturbakkanum. Þar eru oft langar biðraðir meðan hermenn skoða skilríki allra þeirra sem koma eða fara, hvort sem er fótgangandi eða í bíl. Þessum varðstöðvum hefur líka oft verið lokað algerlega eftir meiri háttar átök og þetta hefur truflað líf Palestínumanna mikið, sem hafa ekki komist til vinnu eða til að versla svo dögum skiptir. Palestínumenn eru nú smám saman að taka við öryggisgæslu af Ísraelum, jafnvel í grennd við landnemabyggðir. Menn bíða nú með krosslagða fingur og vona að hryðjuverkamenn virði vopnahléið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×