Erlent

Vilja fleiri NATO-hermenn í gæslu

Bandaríkin munu fara fram á það í dag að bandalagsþjóðir NATO leggi til fleiri hermenn til gæslustarfa í Afganistan og Írak. Forystumenn í gömlu Evrópu eru ekki hrifnir. Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna eru nú á fundi í Nice í Frakklandi og er þar lögð mikil áhersla á að bæta sambúð Bandaríkjanna og evrópsku aðildarlandanna. Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, leggur mikla áherslu á að orðið verði við beiðni Bandaríkjanna um fleiri hermenn en óvíst er hvernig því verður tekið. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hleypti illu blóði í ríkin sem hann sjálfur kallaði gömlu Evrópu þegar hann hvatti Frakka, Þjóðverja og aðra andstæðinga innrásarinnar í Írak til þess að senda hernaðarráðgjafa til Íraks. Þessi ríki vilja ekki að hermenn þeirra stígi fæti á írakska grund. Til málamiðlunar hafa þau boðist til þess að þjálfa írakskar öryggissveitir í þriðja landi. Þjóðverjar eru þannig með þjálfunarbúðir í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en Frakkar í Katar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×