Erlent

Fjórir formenn segja af sér

Formenn fjögurra stjórnmálaflokka sögðu af sér í gær eða fyrrakvöld, þegar ljóst var að flokkarnir höfðu tapað í kosningunum sem haldnar voru í Danmörku í gær. Fyrstur til að segja af sér var Mogens Lykketoft, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, sem tilkynnti áður en lokaniðurstöður voru ljósar að hann myndi segja af sér í dag, fimmtudag. "Þetta voru hræðilegar kosningar fyrir okkur," sagði hann við blaðamann AP. Hann kenndi fjárskorti um ófarir flokksins, sem missti fimm menn af þingi og fékk einungis 25,9 prósenta fylgi eða 47 þingmenn. Hann sagði jafnframt að ríkisstjórnin hefði meiri peninga til að eyða í kosningaherferðina. Lykketoft varð formaður 2002, en eftir kosningarnar 2001 sagði Poul Nyrup Rasmussen af sér formennsku. Allar skoðanakannanir bentu til þess að flokkurinn myndi tapa enn meira fylgi í þessum kosningum, en Lykketoft sagði ítrekað fyrir kosningarnar að hann myndi ekki segja af sér. Í gær tilkynntu einnig Holger K. Nielsen, formaður Sósíalíska þjóðarflokksins, Mimi Jakobsen, formaður Miðdemókrata, og Rune Engelbreth Larsen, formaður Minnihlutaflokksins, að þau hygðust segja af sér formennsku. Sósíalíski þjóðarflokkurinn fékk ellefu þingmenn og missti einn þingmann, þvert á allar væntingar. Fyrstu skoðanakannanir bentu til að flokkurinn myndi bæta við sig einum eða tveimur mönnum. Miðdemókratar náðu ekki manni inn á þing frekar en í síðustu kosningum og Minnihlutaflokkurinn, sem bauð ekki fram fyrir fjórum árum, náði ekki manni á þing. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin í Danmörku hafi haldið velli í gær misstu stjórnarflokkarnir tveir einn þingmann. Af stuðningsflokkum stjórnarinnar jók Danski þjóðernisflokkurinn við fylgi sitt og bætti við sig tveimur þingmönnum. Kristilegir demókratar misstu sína fjóra þingmenn. Borgaralegu flokkarnir fengu því 95 þingmenn, en stjórnarandstöðuflokkarnir 80. Eftir að Anders Fogh Rasmussen fundaði með Margréti Danadrottningu í gær og lýsti yfir sigri sagði hann fréttamönnum að hann og Bendt Bendtsen, formaður íhaldsmanna, væru að íhuga breytingar á ráðherraskipan. Hann sagði þó af og frá að fulltrúar Danska þjóðarflokksins tækju þar sæti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×