Erlent

Blair sama sinnis og Bush um Íran

Íran styður hryðjuverkasamtök og stjórnvöld þar í landi verða að átta sig á því að það verður ekki liðið ef þau muni reyna að hindra friðarferlið í Mið-Austurlöndum. Þetta segir Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. "Ég hef engar efasemdir um að Íran styðji hryðjuverkasamtök," segir Blair og tekur þar með undir með George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, sem sagði fyrir skömmu að Íran væri það land í heiminum sem helst styddi hryðjuverkasamtök. "Núna þegar útlit er fyrir að friðarviðræður í Mið-Austurlöndum séu að komast á rétt spor að nýju verða Íranar að átta sig á því að landið hefur skyldum að gegna við að hjálpa til í því ferli en hindri ekki að það nái fram að ganga," segir Blair. Stjórnvöld í Íran hafa lengi verið grunuð um að vera með leynilega kjarnorkuvopnaáætlun en íranskir ráðamenn segja að kjarnorkuáætlunin snúist um raforkuframleiðslu, ekki vopnaframleiðslu. Blair leggur áherslu á að Evrópusambandið ræði við írönsk stjórnvöld um áætlunina til að tryggja að þau séu ekki að framleiða kjarnorkuvopn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×