Erlent

Tannburstun grennandi?

Þeir sem eiga sér þá ósk heitasta að grennast en nenna hvorki að breyta um mataræði eða fara í líkamsrækt geta glaðst yfir nýjum rannsóknum sem gerðar voru á 14 þúsund manns í Japan. Þær benda nefnilega til þess að þeir sem bursti tennurnar eftir hverja máltíð séu grennri en annað fólk. Borinn var saman lífsstíll tveggja hópa miðaldra fólks; annars vegar fólks sem skilgreint er sem grannt og hins vegar þeirra sem skilgreindir eru sem feitir og var þar litið til svefns, neyslu, vinnu og hreyfingarmynsturs fólks. Þá kom í ljós að hinir grönnu höfðu ríka tilhneigingu til að bursta tennur eftir hverja einustu máltíð en að feitir karlmenn sér í lagi ættu það til að fara í gegnum heilan dag án þess að stinga upp í sig bursta. Það er háskólinn í Tókýó sem ber ábyrgð á þessari frumlegu rannsókn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×