Erlent

Friðaryfirlýsingar væntanlegar

Sitthvor friðaryfirlýsingin er væntanleg í dag frá leiðtogum Palestínumanna og Ísraels en þeir hittust í morgun á friðarfundi í Egyptalandi. Samkvæmt því sem Raanan Gissin, talsmaður Ísraelsstjórnar, greindi frá í morgun munu Palestínumenn byrja á því að lýsa því yfir að ofbeldisverkum gegn Ísraelum verði hætt. Í kjölfarið berist yfirlýsing frá ísraelskum yfirvöldum þess efnis að gangi loforð Palestínumanna eftir verði öllum hernaðaraðgerðum gegn þeim hætt. Vissulega er hér um að ræða friðaryfirlýsingar en sá háttur sem hafður er á undirstrikar þó ekki síður þá varfærni eða jafnvel vantraust sem ríkir enn í samskiptum Palestínumanna og Ísraela. Engu að síður standa vonir til þess að yfirlýsingarnar marki endalok átaka sem kostað hafa fleiri en fjögur þúsund lífið undanfarin fjögur ár. Friðarsamkomulagið er aðeins fyrsta atriðið á dagskrá leiðtogafundarins í dag en þeir Mahmoud Abbas og Ariel Sharon munu að líkindum einnig ræða fyrirhugað brotthvarf Ísraelshers frá Gasa-ströndinni, sem og varanlegan frið á fundi sínum í Egyptalandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×