Erlent

Afsögn páfa hugsanleg

Afsögn páfa er hugsanleg. Æðsti embættismaður Páfagarðs léði í gærkvöldi máls á því og olli með því töluverðu uppnámi. Páfi hefur um hríð verið veikburða og nú er liðin rúm vika frá því að hann var lagður inn á sjúkrahús vegna hálsbólgu. Ítrekað hefur vaknað grunur um að hann liggi banaleguna og þó að því hafi verið neitað ganga sögusagnirnar áfram. Það kann að vera ástæða þess að háttsettir embættismenn í Páfagarði ræða nú um hvort að best væri ef Jóhannes Páll léti af embætti svo að kaþólska kirkjan beri ekki skaða af umræðunni. Angelo Sodano, sem er hæstráðandi í Páfagarði í fjarveru páfa og einn hugsanlegra eftirmanna, var í gærkvöldi spurður hvort hann teldi afsögn koma til greina. Sodano hefur hingað til brugðist illa við slíku tali og vísað því á bug en sagði í gærkvöldi að það væri páfa sjálfs að taka ákvörðun um slíkt - og að hann yrði að eiga það við samvisku sína. Þetta er í fyrsta sinn sem einhver innan Páfagarðs svarar fyrirspurn af þessu tagi með einhverju öðru en neitun. Segi Jóhannes Páll páfi af sér yrði það í fyrsta sinn í 700 ár sem slíkt gerist en sjálfur hefur hann þvertekið fyrir allt slíkt og spurt hvort að Kristur hafi stigið niður af krossinum. Engu að síður greinir breska dagblaðið Times frá því að hann hafi skilið eftir afsagnarbréf hjá Sodano og hirðstjóra Páfagarðs, sem þeir eiga að nota komi einhvern tíma til þess að hann sé andlega ófær um að sinna starfanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×