Erlent

Gott að vera kominn aftur heim

"Ég hef það gott og það er gott að vera heima hjá fjölskyldunni aftur," sagði Fabian Bengtsson í tilkynningu á heimasíðu fyrirtækisins Siba sem fjölskyldan á og hann stýrir. Bengtsson sem er sænskur auðmaður var í haldi mannræningja í sautján daga. Tilkynningin sem Bengtsson birti á vef fyrirtækis síns er það fyrsta sem heyrist frá Bengtsson eftir að mannræningjar slepptu honum fyrir helgi. Í tilkynningunni segir að Bengtsson hvorki vilji né geti tjáð sig um mannránið að svo stöddu. Lögregla hafi sagt honum að tjá sig ekki um það núna. "Ég bið um skilning á því að ég kem ekki til með að tala við fjölmiðla. Þegar banninu lýkur kem ég til með að úttala mig um þetta gegnum almenna fréttatilkynningu en ekki við sérhvern einstakan blaðamann." Í sænska dagblaðinu Expressen sagði að Bengtsson hefði sagt í yfirheyrslu hjá lögreglu að mannræningjarnir hefðu farið vel með sig og lofað honum að þeir myndu ekki skaða hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×