Erlent

Spenna á síðustu metrunum

Kosið er til danska þingsins í dag. Á síðustu tveim dögunum fyrir kosningar sýndu kannanir að munurinn á milli stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkanna hefur aðeins minnkað. Samkvæmt Gallup könnun sem birtist í Berlingske Tidende í gær myndu stjórnarflokkarnir fá 94 sæti, en stjórnarandstöðuflokkarnir myndu fá 81 eitt sæti af 179 þingsætum. Þau fjögur sæti sem eftir eru skiptast á milli færeyskra og grænlenskra þingmanna, en þar er einnig kosið í dag. Samkvæmt könnuninni myndi Venstre fá 54 þingmenn, en hafa nú 56. Jafnaðarmannaflokkurinn, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn myndi fá 49 þingmenn, en hafa nú 52. Jafnvel þó flokkurinn hafi verið að bæta við sig að undanförnu í kosningum, gæti niðustaða kosninga orðið sú versta fyrir flokkinn síðan 1973. Helstu breytingarnar, samkvæmt könnuninni er að Radikale Venstre, stjórnarandstöðuflokkur, sem hefur nú 9 þingmenn, er spáð 16 þingmönnum. Einnig er Kristilegum demókrötum ekki spáð neinum þingmanni, en hafa nú fjóra. Athygli vekur að um 20 prósent aðspurðra segjast enn óákveðnir. Það var því um mikið að keppast fyrir flokkana á síðustu dögum kosningabaráttunnar. Margir áttu von á að innflytjendamál, sem voru ofarlega á baugi fyrir síðustu kosningar, og vera danskra hermanna í Írak yrðu kosningamál nú, en svo varð ekki. Þess í stað hefur áherslan verið á atvinnumál og velferðarmál, að fjölga störfum í landinu og bæta menntun og heilsugæslu. Á sama tíma á ekki að hækka skatta. Í viðtali við fréttastofu AP segir Lars Bille, stjórnmálafræðingur við Háskólann í Kaupmannahöfn, að í þessum kosningum hafi í raun engin baráttumál komið upp. "Það var kallað til kosninga vegna þess að stjórninni vegnaði vel í skoðanakönnunum, ekki vegna þess að það hafi verið einhverjar deilur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×