Erlent

Auðkýfingur áfram forsætisráðherra

MYND/AP
Stjórnarflokkurinn í Tælandi, með geysivinsælan en umdeildan auðkýfing í fararbroddi, vann stórsigur í þingkosningum sem þar voru haldnar í dag. Útgönguspár benda til þess að stjórnarflokkurinn hafi fengið allt að 70% atkvæða og því lítur út fyrir að auðjöfurinn Thaksin Shinawatra sitji fjögur ár til viðbótar á forsætisráðherrastóli. Demókrataflokkurinn, sem er meginstjórnarandstöðuflokkurinn í Taílandi, hefur þegar játað sig sigraðan og óskað Thaksin til hamingju. Þessar kosningar marka tímamót í Taílandi því þetta er í fyrsta sinn í sögu landsins sem forsætisráðherra situr út kjörtímabil sitt, hvað þá að hann sé endurkjörinn. Og hver er þá þessi Shinawatra sem nýtur svo mikillar hylli samlanda sinna? Shinawatra hagnaðist ríkulega á símafyrirtæki sínu sem hann stýrði farsællega þangað til það varð að margmiðlunarrisa en hann hætti öllum störfum fyrir fyrirtækið þegar hann varð utanríkisráðherra árið 1994. Hann hefur stundað mikla vinsældapólitík og lofaði landsmönnum meðal annars ókeypis heilsugæslu og matvæla- og peningadreifingu til fátækra. Andstæðingar hans kalla hann lýðskrumara og jafnvel einráð en jafnvel þeir hafa þurft að viðurkenna að Shinawatra hefur staðið við flest öll sín loforð ásamt því að efnahagur landsins hefur blómstrað undir hans stjórn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×