Erlent

Rice í sáttaferð um Evrópu

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, staðhæfir að innrás í Íran sé ekki á dagskrá á næstunni. Rice er nú á heljarmiklu ferðalagi um Evrópu. Ferðin hófst í morgun hjá bestu vinum Bandaríkjanna í Bretlandi þar sem Rice hitti bæði Tony Blair forsætisráðherra og starfsbróður sinn, Jack Straw. Á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra Straws var Rice spurð út í það hvort innrás í Íran væri væntanleg. Hún sagði að árás væri ekki á dagskrá á þessari stundu. Dimplómatískum aðferðum væri beitt nú en Íran væri ekki ónæmt fyrir þeim breytingum sem ættu sér stað nú í Miðausturlöndum. Rice taldi að þegar Íranar yrðu vitni að því þegar Afganar gengju til kosninga í Íran í þágu frjáls Afganistans og Írakar í Íran gengju til kosninga í þágu frjáls Íraks hlyti það að hafa áhrif á Írana sem hefði lengi verið meinað um að gera slíkt hið sama. Bandaríkjastjórn vinnur ásamt Bretum, Frökkum og Þjóðverjum að því að þrýsta á stjórnvöld í Íran að láta af kjarnorkuáætlun sinni enda er óttast að Íran muni nota kjarnorkuna til að búa til gereyðingarvopn. Rice flaug síðdegis til Þýskalands og hitti þar fyrir Gerhard Schröder kanslara og hún mun líka fara til Frakklands í þessari reisu. Talið er að eitt af stærstu verkefnum hennar í þessari Evrópuferð verði að reyna að lappa upp á samskipti Bandaríkjanna við þessar þjóðir en þau hafa verið í uppnámi allt frá innrásinni í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×