Erlent

Segir aðstæður í Kabúl erfiðar

Óttast er um líf ríflega hundrað manna sem voru um borð í flugvél sem fórst eftir að henni var snúið frá Kabúlflugvelli í Afganistan í gær vegna veðurs. Íslenskur friðargæsluliði sem vinnur á flugvellinum segir að aðstæður þar séu erfiðar enda hefur snjóað gríðarlega undanfarnar vikur. Fregnir eru enn nokkuð óljósar, til dæmis hafa borist misvísandi fréttir af því hvort búið sé að finna flak vélarinnar eða ekki. Leit hefur hins vegar verið hætt í dag enda komin nótt í Afganistan. Alls voru 104 um borð í vélinni, 96 farþegar og þar af um 14 útlendingar. Gunnlaugur Jónsson slökkviliðsmaður, sem var á vakt á flugvellinum í Kabúl þegar við náðum tali af honum í dag, segir að vélin hafi verið að koma frá Herat og hafi átt að lenda í Kabúl. Hún hafi flogið yfir flugvöllin klukkan fjögur að staðartíma í gær en hafi ekki getað lent vegna lélegs skyggnis. Mikil snjókoma hafi verið í gær og um hálfum metra af jafnföllnum snjó hafi kyngt niður. Vélin hafi því verið snúið við og hún hafi átt að lenda í Pakistan en ekki hafi heyrst meira frá flugmönnum hennar. Flugvöllurinn er fullbúinn góðum snjóruðningstækjum líkt og aðrir alþjóðlegir vellir en Gunnlaugur segir að í svona mikilli snjókomu verði stundum tafir. Mikið fannfergi hafi verið á svæðinu undanfarið og hvítt yfir öllu undanfarnar tvær til þrjár vikur sem sé met í Kabúl. Yfirtleitt séu um tveir til þrír snjódagar á vetri en fólki þyki veturinn harður nú. Fimmtán íslenskir friðargæsluliðar starfa á Kabúlflugvelli sem er að öllu jöfnu talinn frekar erfiður enda er aðkoman brött. Gunnlaugur segir að fjallgarðar séu hringinn í kringum borgina og flugvélarnar þurfi að taka svolitla dýfu til að komast niður að flugvellinum, þetta sé svipað og að lenda á Ísafirði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×