Erlent

Hertar öryggiskröfur í Írak

Á annan tug óbreyttra borgara og íraskra lögreglumanna létust í árásum uppreisnarmanna í Írak í gær. Þá voru fimm bandarískir hermenn drepnir í þremur árásum í Bagdad. Uppreisnarmenn súnní-múslima, sem hafa beðið fólk að sniðganga kosningarnar á morgun, hafa hótað hertum árásum og segja að spjótunum verði beint að kjörstöðum. Vegna þessa á enn að auka öryggiskröfur vegna kosninganna. Útgöngubann hefur verið lengt og landamærum landsins verður lokað, sem og flugvellinum í Bagdad. Þá hefur enn ekki verið tilkynnt hvar kjörstaðirnir eru. Á kjördag verður lokað fyrir bílaumferð óbreyttra borgara. Stuðningsmenn hryðjuverkamannsins Abu Musab al-Zarqawi sögðust í gær hafa myrt einn af frambjóðendum á lista Iyad Allawi, bráðabirgðaforsætisráðherra landsins. Í gærkvöldi höfðu þær fréttir ekki verið staðfestar en mennirnir sögðust ætla að birta myndir af morðinu á vefsíðu sinni. Í gær kusu um 280 þúsund Írakar búsettir utan heimalands síns utankjörstaðar í fjórtán löndum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×