Innlent

Launamunur aldrei meiri

Launamunur hefur aukist mikið hér á landi miðað við alþjóðlega Gini-stuðulinn sem mælir tekjudreifingu. Kvarðinn tekur gildi frá núll og upp í einn, en því hærri sem hann er, því ójafnari er dreifing tekna. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðherra hefur mismunur ráðstöfunartekna hjóna og sambúðarfólks aukist úr 0,206 árið 1995 í 0,3 árið 2003. Það telst mjög marktæk breyting. Útreikningur á stuðlinum byggist á öllum tekjum en ekki einungis launatekjum. Sigurjón Þórðarsson, þingmaður Frjálslyndra, beindi nýverið fyrirspurn til Geirs H. Haarde fjármálaráðherra um útreikning á stuðlinum, en hann hefur ekki verið gerður hér á landi síðan Þjóðhagsstofnun var lögð niður árið 2002. Sigurjón Þórðarson segir að tekjumunur hér á landi sé greinilega að aukast mikið og hann eigi enn eftir að aukast þegar boðaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar komi til framkvæmda því þær komi nánast eingöngu hinum efnameiri til góða. Hann segir tekjumun í nágrannaþjóðum stöðugan á meðan hann aukist hér á landi. "Tekjumunur fólks hefur lítið verið í umræðunni upp á síðkastið vegna þess að ríkisstjórnin hætti þessum útreikningum," segir Sigurjón. "Þetta er grundvallarbreyting á þjóðfélaginu og í næstu kosningum verður þjóðin að taka afstöðu til þess hvort það sé í þessa átt sem hún vill þróast." Pétur Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að ný starfsgrein hafi orðið til með tilkomu og stækkun fjármálastofnana. Starfsfólk þar fái greidd há laun og það kunni að skýra þróun Gini-stuðulsins hér á landi að hluta. "Annars hefði ég átt von á öðru þar sem lægstu laun hafa hækkað umfram önnur og það hefði átt að minnka þennan mun. En há laun í fjármálageiranum virðast vega þetta upp." Talsmenn Alþýðusambandsins höfðu ekki skoðað niðurstöðu fjármálaráðuneytisins þegar leitað var eftir viðbrögðum í gærkvöld og ekki náðist í Geir H. Haarde fjármálaráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×