Fastir pennar

Snillingurinn sem tapaði gáfunni

Ég las einhvers staðar að Rod Stewart hefði orðið sextugur um daginn. Poppstjörnur æsku minnar gerast aldurhnignar. Rod Stewart gerði nokkrar frábærar plötur í kringum 1970 - þar fór saman einstæð söngrödd hans, innilegur flutningur og skemmtilega alþýðlegur andi tónlistarinnar. Hann hafði líka með sér einhverja bestu hljómsveit í sögu rokksins, en þar var fremstur í flokki gítaristinn Ron Wood. Svo fóru þeir hver sína leið. Sjaldan hafa menn sólundað hæfileikum sínum eins og þeir félagarnir. Þeir urðu svosem nógu ríkir og óðu í kvenfólki, svo kannski skipti það ekki máli. Wood varð undirleikari hjá Richards og Jagger í Rolling Stones, hálfgerð skrípafígúra, en Stewart týndist í ljóskum, fótbolta og glaumgosalíferni. Strax 1975 var ljóst að hann hafði fjarlægst uppruna sinn svo að í tónlist hans buldi eins og tómri tunnu. Æ síðan hefur hann verið í hallærislegum eltingaleik við að tolla í tískunni - afkáralega sólbrúnn, með strípur og gullkeðju um hálsinn. Merkilegt nokk lafir hann þó ennþá sem einhvers konar poppstjarna, ekki síst á síðum súðurblaða. Nú fer maður í súpermarkaði og lyftur og alls staðar er verið að spila plötu þar sem Stewart syngur gömul amerísk dægurlög. Þetta gerir hann af einstöku tilfinningaleysi - svo úr verður sætsúpuleg kringlumúsík. Plöturnar fljúga upp vinsældalista, en þær hljóta að teljast með því vemmilegasta sem hefur heyrst lengi. Smekkleysið er allsráðandi. Eftir standa Gasoline Alley, Every Picture Tells a Story og Never a Dull Moment; plöturnar sem Stewart gerði um og upp úr 1970. Meðal snilldarverka rokksins. Hlustið á þær. --- --- --- Halldór Ásgrímsson og hans menn kættust mjög yfir mistökum Róberts Marshalls og fréttastofu Stöðvar 2. Morguninn eftir að frétt Róberts birtist hófst þingfundur. Tóku menn eftir því að Björn Ingi Hrafnsson og Illugi Gunnarsson, voru mættir, pískruðu saman spenntir eins og litlir drengir. Þingfundur hófst og ekkert gerðist. Vonbrigðasvipurinn leyndi sér ekki á aðstoðarmönnunum. Þeir samherjarnir munu hafa átt von á að stjórnarandstaðan - eðli sínu trú - ryki upp vegna fréttarinnar á Stöð 2; byrjaði með einhver læti sem Halldór myndi svo ná að kveða niður með velútilátnu rothöggi. Væri þá Íraksmálið eiginlega úr sögunni. Af þessu varð ekki. Stjórnarandstaðan gekk ekki í gildruna - sýndi þar óvenjuleg klókindi. Einhver í liði hennar mun hafa áttað sig á að eitthvað væri bogið við fréttina. Annars þykjast stjórnarliðar hafa unnið nokkurn sigur - ekki síst framsóknarmenn. Þeir hafa að undanförnu talað um aðför fjölmiðla að Halldóri Ásgrímssyni. Áhrifamaður úr stjórnarliðinu sagði við fréttamann af Stöð 2 í gær - þið munuð fá að finna fyrir þessu vel og lengi og úr öllum áttum. --- --- --- Allir fá um sig minningargrein á Íslandi - enginn er svo aumur að um hann séu ekki skrifaðir nokkrir dálkar. Meira að segja kona sem myrti tvo menn og andaðist á réttargeðdeild fær um sig heila opnu í Morgunblaðinu. Þetta er óneitanlega sætt - og smáþjóðarlegt. Matthías Johannessen, fyrrverandi Moggaritstjóri, gerir minningargreinar að umtalsefni í bókinni Málsvörn og minningar sem kom út fyrir jólin - þetta er vel sagt hjá Matthíasi: "Það er varla nokkur dáinn á Íslandi fyrr en hann hefur fengið sína minningargrein í Morgunblaðinu. Hinn látni fær með sér minningargrein á sömu forsendum og dauðir höfðingjar í fornöld fengu með sér í gröfina vopn sín, hesta, skip eða vagna. Minningargreinin er sem sagt einhvers konar veganesti; eða vegabréf. Hún er yfirlýsing um að hinn látni er ekki einn á ferð. Hann er í slagtogi með vinum sínum og venslamönnum. Umvafinn vináttu og kærleika. Umvafinn hlýju sem nær út yfir gröf og dauða." Þannig gegna minningargreinarnar ærnu hlutverki, segir Matthías. Morgunblaðið er samt í dálítilli klemmu. Minningargreinarnar eru svo fyrirferðarmiklar að þær eru að sliga blaðið sem á köflum lítur út eins og fagrit um dauðann. En á hitt er að líta að þetta er ósvikin íslensk menning og engin leið að hætta. --- --- --- Bendi svo á litla umfjöllun um kvikmyndina Alexander mikli hér neðar á síðunni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×