Erlent

Frelsunar úr Auschwitz minnst

Einhver nöturlegasti staður á jörðu er án efa Auschwitz, útrýmingabúðir nasista í Póllandi. Í dag var þess minnst að sextíu ár eru frá því að fangarnir þar voru frelsaðir. Ein og hálf milljón manna var drepin í útrýmingarbúðunum í Auschwitz-Birkenau: gyðingar, sígaunar, hommar og lesbíur og aðrir sem áttu ekki heima í hreinum heimi þýskra nasista. Enn þann dag í dag er Auschwitz ömurlegur staður sem ber merki þess sem þar fór fram. Þess var í dag minnst að sextíu ár eru frá því að þeir sem þar komust af voru frelsaðir, á köldum, snjóþungum degi í janúar árið 1945. Sjö þúsund manns voru þá á lífi í búðunum. Í dag var kveikt þar á kertum og víða í Evrópu var atburðanna minnst með þögn. Þeir sem eftir lifa leggja áherslu á að atburðirnir í Auschwitz og hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar gleymist aldrei. Eva Mozes Kor heimsótti fangabúðirnar í dag, en hún var þar sjálf sem barn þegar rússneskir hermenn frelsuðu fangana. Hún segir aðeins eina leið fyrir fórnarlömb nasismans að komast af. Að fyrirgefa. Annað fórnarlamb, Esther Gayzaltz, sem býr í Ísrael tekur í saman streng. Hún segir að 60 ár séu langur tími en samt finnist henni eins og allt hafi gerst í gær. Sársaukinn hverfi aldrei. Hún segist hins vegar ekki finna fyrir hatri í garð neins. Önnur kynslóð hafi framið glæpina og ekki sé réttlátt að kenna barnabörnum um gjörðir afa sinna og amma. Heimurinn verði að finna leið til að lifa í friði því lífið sé svo stutt en samt svo fallegt og dásamlegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×