Innlent

Styrking krónunnar ekki skilað sér

Á næstu mánuðum kemur í ljós hvort svigrúm sem myndast hefur til verðlækkana á mörgum flokkum innfluttra vara skili sér í lægra verði til neytenda eða hvort ávinningur almennings verði étinn upp með aukinni álagningu. Þetta kemur fram í greinargerð ASÍ um breytingar á verðlagi innfluttra vara og gengisþróun á árunum 2000-2004. Þegar gengi krónunnar lækkaði árin 2000 og 2001 leiddi það til verðhækkana á innfluttum vörum í takt við gengisbreytinguna. Í nóvemberlok 2001 náði gengisvísitalan hámarki, 151,16 stig, og hafði þá hækkað um 37 prósent frá ársbyrjun 2000. Í aðdraganda stóriðjuframkvæmda 2002 fór krónan að styrkjast og hefur sú þróun haldið áfram. Við þessar aðstæður ætti innflutningsverðlag að lækka þar sem innkaupsverð hjá birgjum og verslunum er lægra. Eðlilegt er að gengisbreytingar taki nokkurn tíma að skila sér út í verðlagið og stjórnast það af birgðastöðu, gengisvörnum og samkeppnisumhverfi fyrirtækja svo nokkuð sé nefnt. Þetta getur skilað sér misjafnlega milli vöruflokka. Á mörkuðum með mikilli samkeppni í smásölu eða þar sem auðvelt er að gera samanburð á verði og flytja vörur milli landa, til dæmis í tækni og fatnaði, virðist verð hafa lækkað eða staðið í stað. Á öðrum mörkuðum hækkaði verðlag mikið í upphafi tímabilsins og hefur sú hækkun ekki gengið til baka eftir að gengi krónunnar fór að styrkjast frá 2002 heldur hækkað ef eitthvað er. Þannig hefur verð á fatnaði haldist nokkuð stöðugt, matarverð og verð á raftækjum efur lækkað en verð á húsgögnum, lyfjum, heimilisbúnaði og bílum farið hækkandi. Henný Hinz, verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ, segir að aftur verði kannað í vor hvort verð hafi lækkað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×