Erlent

Frjálslyndir missa örlítið fylgi

Stjórnarflokkarnir í Danmörku, Frjálslyndi flokkurinn og Íhaldsflokkurinn hafa misst örlítið fylgi samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var fyrir Jótlandspóstinn og myndu missa eitt þingsæti ef úrslit kosninganna 8. febúrar yrðu þessi. Fylgi þeirra er samt nægjanlegt, með stuðningi Danska þjóðarflokksins og Kristilegra demókrata til að viðhalda stjórnarsamstarfinu. Frjálslyndi flokkurinn myndi missa tvö þingsæti og fá 55 þingmenn kjörna, en hafa nú 57. Íhaldsflokkurinn stendur í stað með 17 þingsæti. Danski þjóðarflokkurinn myndi bæta við sig einum manni og fá 21 þingmann kjörinn. Stjórnarandstaðan hefur nú 81 þingsæti og myndi bæta við sig einu til viðbótar samkvæmt þessari könnun. Stjórnarflokkarnir myndu fá 93 þingmenn kjörna. Bæði Jafnaðarmenn og Radikal Venstre bæta við sig þingmanni samkvæmt könnuninni. Jafnaðarmenn vilja nú fá umboðsmann danska þingsins til að athuga hvort embættismaður fjármálaráðuneytisins hafi verið notaður í kosningabaráttunni fyrir Frjálslynda flokkinn og vísa þar til 55 síðna skýrslu sem Anders Fogh Rasmussen vitnaði til í sjónvarpskappræðum við Mogens Lykketoft þann 18. janúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×