Erlent

Hyggst færa heiminum frelsi

Maðurinn, sem gárungar sögðu forseta fyrir slysni, verður forseti Bandaríkjanna í fjögur ár í viðbót og nú með miklum meirihluta atkvæða. George Bush ætlar að færa heimsbyggðinni frelsi og segir það tryggja öryggi Bandaríkjanna. Frelsi var lykilorðið í ræðu George Bush Bandaríkjaforseta í gær. Fimmtán sinnum minntist hann á frelsi og að vera frjáls, oftast í tengslum við að færa öðrum frelsi. Bush sagði að ef frelsi ætti að ríkja í Bandaríkjunum þyrfti að vera frelsi í öðrum löndum. Mesta vonin um frið í heiminum væri sú að friður ríkti sem víðast. Það kom einnig fram í máli Condoleezzu Rice, sem varð í vikunni utanríkisráðherra, að það væri efst á blaði nýrrar stjórnar að breiða út frelsi um heimsbyggðina þó að enginn viti nákvæmlega hvernig það á að gerast. Alþjóðasinnar, neokonservatívir repúbikanar og aðrir í stjórninni hafa nokkuð ólíkar skoðanir og áherslur þegar frelsið er annars vegar. Það er ekki alltaf auðvelt að vera forseti á öðru kjörtímabili því að sá tími sem forsetinn hefur til að fá stefnumál sín í gegn er ákaflega naumur. Þó að hann búi fjögur ár í Hvíta húsinu er aðeins um ár þangað til að þingmenn beina athygli sinni að þingkosningum. Í þeim kosningum gagnast velvild forsetans ekki lengur og því er þeim ekki endilega lengur í hag að vera honum hliðhollir. Auk þess eru tvö helstu stefnumál Bush á heimavelli dýr. Annars vegar vill hann umbætur á skattalögum og hins vegar bylta eftirlaunakerfinu. Hvort tveggja yrði dýrt fyrir ríkissjóð sem er nú þegar í skuld, ekki síst vegna kostnaðar við stríðið í Írak sem enginn í stjórn Bush vill spá fyrir um hvenær lýkur. Peggy Noonan, einn leiðarahöfunda Wall Street Journal, fannst ræða Bush vera í skýjunum, fjarri yfirborði jarðar en nærri guði. Hún hefur efasemdir um skynsemi þessa en telur þetta til marks um að Bush og samstarfsmenn hans séu í eins konar krossför, óraunhæfri herferð gegn harðstjórum og illvirkjum um allan heim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×