Erlent

Bush hét kúguðum aðstoð

"Frelsið sem við njótum í okkar eigin landi veltur æ meira á því hvort frelsið nái fram að ganga í öðrum löndum." sagði George W. Bush í gær þegar hann sór eið sem 43. forseti Bandaríkjanna fyrir framan um hálfa milljón manns á tröppum þinghússins í Washington. "Allir þeir sem búa við harðstjórn og vonleysi geta treyst því Bandaríkin munu ekki hunsa kúgunina eða afsaka harðstjórana. Þegar fólk vill frelsi þá stöndum við með því. Bandaríkin heita því að veita frelsinu sporgöngu. Jafnvel á myrkustu stöðum veraldar." Skoðanakannanir sýna að Íraksstríðið hefur aldrei verið jafn umdeilt meðal almennings í Bandaríkjunum og nú. Þjóðin er í raun klofin í afstöðu sinni til stríðsins. Bush nefndi Írak aldrei á nafn í ræðu sinni. Flestir þeir sem komu saman við þinghúsið voru þar til að fagna forsetanum. Þó var hópur fólks sem stóð þar með mótmælaskilti. Einn hélt á eftirlíkingu af líkkistu sem átti að tákna dauða allra þeirra hermanna sem látist hafa í Írak. Gríðarleg öryggisgæsla var við þinghúsið þegar forsetinn sór embættiseiðinn. Um 100 götur voru lokaðar fyrir umferð. Leyniskyttur tóku sér stöðu á þökum bygginga, sex þúsund lögreglumenn og sjö þúsund hermenn gættu þess að allt færi vel fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×