Erlent

Meirihluti 1-7 ára barna fórst

Svo virðist sem meirihluti barna á aldrinum 1-7 ára hafi farist þegar flóðbylgjan skall á Aceh-héraði í Indónesíu á annan í jólum. Starfsmenn hjálparstofnana sem eru að bólusetja börn í héraðinu við mislingum hafa sér til skelfingar uppgötvað að fá börn undir sjö ára aldri koma til bólusetningar. Fjöldabólusetningar eru algengar í Indónesíu og þær eru alla jafna mjög vel sóttar þar sem foreldrum er umhugað um að vernda börn sín fyrir alls kyns sjúkdómum. Talsmaður Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Aceh-héraði segir að einnig nú flykkist foreldrar með börn sín til bólusetningar en hjálparstarfsmenn hafi tekið eftir því að þangað komi nær engin börn undir sjö ára aldri. Börn frá eins til sjö ára eru þau sem síst geta bjargað sér sjálf ef eitthvað bjátar á. Talsmaður Barnahjálparinnar segir að ítarlegri rannsóknir eigi eftir að fara fram en eins og þetta horfi við starfsmönnunum virðist sem sextíu prósent barna í þessum aldurshópi hafi farist. Þetta þýðir náttúrlega mikið tómarúm í samsetningu íbúa þegar fram líða stundir. Til dæmis verða margir skólar sem fá nánast enga nemendur í bekki sína. Þessa sjást í raun þegar merki. Í einum skóla í héraðinu voru 217 nemendur fyrir flóðbylgjuna. Nú eru þeir 81.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×