Erlent

Tala látinna hækkaði um 60 þúsund

Tala þeirra sem létust í flóðbylgjunni í Suðaustur-Asíu hækkaði snarlega um 60 þúsund manns í dag þegar yfirvöld í Indónesíu uppfærðu skýrslur sínar og þeir, sem áður var saknað, voru taldir af. Fjöldinn nemur alls rúmum 225 þúsundum. Lífið á hamfarasvæðunum verður aldrei samt eins og Ingólfur Bjarni Sigfússon komst að þegar hann heimsótti lítið sjávarþorp á Srí Lanka. Á flóanum sem þorpið stendur við voru yfirleitt um 1500 bátar að veiðum dag hvern. Svo var líka á annan dag jóla. Núna eru nánast engir bátar eftir. Talið er að 4800 manns hafi týnt lífi á svæðinu örlagadaginn mikla. Í þorpinu snerist allt um fisk, báta og net. Netin eru verðmætasta eignin; þau eru ofin og ganga í arf svo kynslóðum skiptir. Nú eru þau í hönk og kafarar leita þeirra sem áttu þau. Ein kona sem ég hitti í flóttamannabúðum var ein hinna heppnu. Hún bjó í tveggja hæða húsi nógu langt frá ströndu til þess að aldan var ekki lengur nægilega kraftmikil til að leggja húsið í rúst þegar hún skall á því. Konan flýði með börnunum sínum upp á aðra hæð og slapp lifandi. En þegar vatnið sjatnaði voru tíu lík í kring.    Einn starfsmanna Rauða krossins í flóttamannabúðunum sem veitir áfallahjálp sagði mér að hún hefði rætt við um 3000 manns frá því 26. desember og að þörfin væri mikil. Fólk væri í miklu áfalli og að erfitt væri að hjálpa þessum fjölda. Við hliðina voru sjálfboðaliðar að vinna með börnum, ræða við þau um það sem hafði gerst og láta þau teikna myndir. Myndirnar voru allar frekar keimlíkar og sögðu sína sögu: blátt hafið í forgrunni. Talið er að fjórir af hverjum tíu sem létust á Srí Lanka hafi verið börn og fjöldi þeirra sem lifði af missti foreldra sína. Sú hugsun skýtur óneitanlega upp kollinum hvernig þessar ungu sálir eigi að takast á við allt sem gerst hefur, og bíður þeirra enn. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×