Erlent

Kviðdómsval frá helvíti

Lögmenn og saksóknarar sem þurftu að velja fólk í kviðdóm vegna líkamsárásar í hjólhýsabyggð í Tennessee segjast aldrei hafa lent í öðru eins. Fólkið sem þeir gátu valið úr voru hvert öðru sérstakara og varð verjandanum Leslie Ballin það á að kalla þetta kviðdómsvalið frá helvíti. Skömmu eftir að kviðdómsvalið hófst í síðustu viku stóð einn hugsanlegra kviðdómenda upp og fór. "Ég er undir áhrifum morfíns og þrælskakkur," sagði hann þegar hann gekk út án þess að spyrja kóng eða prest. Eftir þetta versnaði uppákoman aðeins. Þegar saksóknari spurði hvort einhver hugsanlegra kviðdómenda hefði framið glæp svaraði einn því til að hann hefði verið handtekinn og fluttur á geðsjúkrahús eftir að hann skaut að yngri frænda sínum. Hann sagði frændann hafa reitt sig til reiði þar sem hann neitaði að koma undan rúmi sínu. Annar hugsanlegur kviðdómandi sagðist eiga við áfengisvandamál að stríða og kvaðst hafa verið handtekinn fyrir að reyna að kaupa vændi af lögreglukonu í dulargervi. "Ég hefði átt að vita að eitthvað gruggugt var á seyði. Hún var enn með allar tennurnar." Fjórði sagði líklega ekkert vit í því að hann tæki sæti í kviðdómnum. "Í mínu hverfi vita allir að ef þú færð Ballinn ertu líklega sekur." Hann slapp við kviðdómsskyldu. Á endanum tókst að velja kviðdóm og rétta í máli konu sem var ásökuð fyrir að berja kærustu bróður síns í andlitið með múrsteini. Hún var sýknuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×