Erlent

Kosið fyrir umdeildar breytingar

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana tilkynnti á þingfundi í gær að þingkosningar verða haldnar 8. febrúar, eftir 20 daga. Kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en í nóvember, en Anders Fogh sagði á þinginu í gær að nauðsynlegt væri að flýta þingkosningum, svo þær rekist ekki á sveitarstjórnarkosningarnar sem verða haldnar 15. nóvember. Stjórnmálaskýrendur í Danmörku, meðal annars í ítarlegri úttekt í Berlinske Tidende, benda á að stjórnarflokkarnir njóti nú vinsælda í skoðanakönnum og treysti á að þær muni haldast áður en til umbóta kemur í vor, sem mun fækka sveitarfélögum úr 274 í 100. Með þessum breytingum mun opinberum störfum einnig fækka. Mikið hefur verið um það rætt í Danmörku að undanförnu að kosninga sé að vænta og kynntu jafnaðarmenn áhersluatriði sín á sunnudag undir kjörorðinu Made in Denmark. Meðal kosningaloforða er að skapa 50.000 ný störf á kjörtímabilinu auk 110 milljarða króna skattalækkana. Í viðtali við Danska útvarpið lýstu bæði Mogens Lykketoft, formaður Jafnaðarflokksins og Pia Kjærsgaard, formaður danska Þjóðarflokksins yfir ánægju með að kosningar verði haldnar nú. Rasmussen, sem er formaður Frjálslynda flokksins, stýrir nú minnihlutastjórn með Íhaldsflokknum, með stuðning Danska þjóðarflokksins og hafa þeir alls 94 þingmenn af 175. samkvæmt Gallup könnun sem birtist á sunnudag myndi núverandi stjórn halda velli. Einnig hafa Kristilegir Demókratar lofað núverandi stjórn stuðningi sínum. Þeir hafa nú fjóra þingmenn, en fengu engan samkæmt Gallup könnuninni. Bendt Bendtsen, formaður Íhaldsflokksins og varaforsætisráðherra segir stjórnarflokkanna tvo ganga hönd í hönd til þessara kosninga. Þetta undirstrikuðu leiðtogar flokkana með því að halda stuttan sameiginlegan blaðamannafundi í gær. Anders Fogh Rasmussen lagði þó áherslu á að þetta væru tveir ólíkir flokkar. Kosingaloforð flokkanna er að efla rannsóknir og menntun, meðal annars með því að leggja aukið fé í rannsóknir og fjölga samræmdum prófum í grunnskólum. Þá á að skapa 60.000 ný störf á kjörtímabilinu, efla sjúkrahús og bæta stöðu barnafjölskyldna. Anders Fogh segir að ekki verði vikið frá núverandi skattastefnu. Skipting þingmanna í danska þinginu Kosningar /Gallup könnun 16/1 Jafnaðarmenn 52 /55 Radikal Venstre 9 /12 Íhaldsflokkurinn 16 /14 Miðdemókratar 0 /0 Sósíalíski þjóðarflokkurinn 12 /12 Kristilegir demókratar 4 /0 Minnihlutaflokkurinn 0 /0 Danski þjóðarflokkurinn 22 /21 Frjálslyndi flokkurinn 56 /57 Einingarflokkurinn 4 /4 aðrir 0 /0 alls 175 /175



Fleiri fréttir

Sjá meira


×