Erlent

Stærsta farþegaþota heims kynnt

Airbus-verksmiðjurnar kynntu í morgun stærstu farþegaþotu sögunnar við mikla athöfn í Tolouse í Frakklandi. Þotan tekur 555 farþega og er sögð svar Evrópumanna við hinni bandarísku Boeing 747. Meðal þeirra sem sóttu athöfnina og tóku til máls voru Tony Blair, forætisráðherra Bretlands, Jacques Chirac Frakklandsforseti og Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands. Vélin tekur 555 farþega, hefur vænghaf sem slagar hátt í lengd knattspyrnuvallar og er tæpir tuttugu og sjö metrar að hæð. Farþegarýmið er á tveimur hæðum. Vélin er svar evrópska flugvélaiðnaðarins við Boeing 747 þotu bandarísku Boeing-verksmiðjanna og virðast flugfélög víða um heim taka vélinni fagnandi. Fjórtán flugfélög hafa þegar pantað 149 flugvélar og hafa skuldbundið sig til greiðslu tæplega 2500 milljarða íslenskra króna fyrir vélarnar. Vonast er til þess að hagkvæmni vegni stærðar vélarinnar verði til þess að lækka kostnað af hverju sæti um fimmtán prósent að jafnaði. Forstjóri Airbus segist sannfærður um að á milli 700 og 750 vélar eigi eftir að seljast enda viti menn að vél af þessu tagi megi nota næstu fjörutíu til fimmtíu árin. Vélinni verður prufuflogið í mars eða apríl á þessu ári en áhugasamir ferðamenn verða þó að bíða aðeins lengur því að hún verður ekki tekin í almenna notkun fyrr en á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×