Erlent

Látinn eftir 15 ára þögn

Zhao Ziyang, fyrrum leiðtogi kínverska kommúnistaflokksins, lést á mánudag 85 ára að aldri á sjúkrahúsi í Bejing. Hann átti þátt í að koma af stað efnahagslegum umbótum í Kína á níunda áratugnum, en féll í ónáð og var settur í stofufangelsi eftir að hann sýndi samúð með mótmælendum á Torgi hins himneska friðar 1989. Zhao Ziyang sást síðast opinberlega 19 maí 1989, daginn áður en herlög voru sett í Peking. Þá birtist hann á Torgi hins himneska friðar, ávarpaði mótmælendur sem þá voru í hungurverkfalli og grátbað þá um að falla frá mótmælaaðgerðunum. Zhao var sakaður um að kljúfa flokkinn, með því að styðja mótmælendur sem vildu hraðari lýðræðisumbætur. Kínversk stjórnvöld sendu út örstutta tilkynningu um andlát Zhaos, sem birtist á vefsíðum og í síðdegisblöðunum. Útsendingar CNN á hótelum og íbúðarhúsum duttu út þegar minnst var á hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×