Erlent

Bretar senda 650 hermenn til Íraks

Bretar hafa sent 650 hermenn til viðbótar til Íraks til þess að reyna að efla öryggi í kringum kosningarnar sem haldnar verða í landinu í lok mánaðarins. Uppreisnarmenn hafa ítrekað gert árásir á her, lögreglu og almenning undanfarnar vikur og er talið að þeir reyni að koma í veg fyrir að kosið verði í landinu um mánaðamótin. Talsmenn bráðabirgðastjórnarinnar og Bandaríkjastjórnar hafa ekki viljað fresta kosningunum þrátt fyrir að ítrekaðar skærur og óvissu um öryggi kjósenda víðs vegar um landið. Þó þykir ljóst að ekki er hægt að kjósa alls staðar í landinu á sama tíma, en það verður í höndum írakskra hermanna að standa vörð um kjörstaði og breskir og bandarískir hermenn verða í viðbragðsstöðu. Hermennirnir 650 verða, samkvæmt breskum stjórnvöldum, aðeins í skamman tíma í landinu, eða þar til kosningarnar eru yfirstaðnar. Alls eru um níu þúsund breskir hermenn í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×