Erlent

Segir hættuna ekki mikla

Dönsk yfirvöld hafa varað danska þegna við yfirvofandi hryðjuverkaárás í Aceh-héraði í Indónesíu. Íslenskur hjálparstarfsmaður í héraðinu segir hins vegar að það sé almennt mat manna að hættan sé ekki mikil. Það var danska utanríkisráðuneytið sem sendi frá sér viðvörun seint í gær um hugsanleg hryðjuverk í Ache-héraði. Ekki var nánar tiltekið hvar eða hvenær en hjálparstarfsmenn og blaðamenn voru sérstaklega varaðir við árásum og reyndar allir útlendingar. Ómar Valdimarsson, sendifulltrúi Rauða kross Íslands, er eftir því sem best er vitað eini Íslendingurinn sem nú er staddur í Ache-héraði. Hann segist hafa heyrt af þessari viðvörun í nótt en eftir að Rauði krossinn hafi skoðað málið vandlega hafi verið ákveðið að taka mátulega lítið mark á þessu. Hann telji starfsmenn Rauða krossins ekki í hættu og þeir væru ekki þarna ef svo væri. Hins vegar verði ekki fram hjá því litið að í Aceh-héraði sé ófriðarástand og öryggi ekki alltaf tryggt. Fulltrúar hers og uppreisnarmanna hafi lýst yfir vilja til vopnahlés og hann trúi því að þeir meini það í einlægni. Ómar segir að hjálparstarf gangi annars að mestu vel og verið sé að dreifa matvælum og hjálpargögnum til um það bil 50 þúsund fjölskyldna á hverjum degi. Lítil fyristaða sé á flutningi á hjálpargögnum til Aceh-héraðs en vandinn sé sá að vegir, sem opnaðir hafi verið til að hægt væri að flytja gögn landleiðina, hafi gefið sig undan þunga flutningabíla. Því hafi æ meira þurft að nota flugvélar og báta en það hafi gengið ágætilega. Flestir hafi fengið alla þá hjálp sem þeir þurfa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×