Erlent

Óperuhús vígt í Kaupmannahöfn

Óperuhúsið í Kaupmannahöfn var opnað við hátíðlega athöfn í gærkvöld að viðstöddum fjórtán hundruð gestum. Bygging hússins tók þrjú ár og kostaði sem nemur þrjátíu milljörðum íslenskra króna. Loks lágu Danir í sínu eigin óperuhúsi. Minnimáttarkennd gagnvart óperuhúsum nágrannanna í Helsinki og Gautaborg hverfur, enda er danska Óperan fjórtán hæða og þar af eru fimm neðanjarðar. Það var svo til fullt hús við vígsluathöfnina í gær þegar fjórtán hundruð gestir fylgdust með fjögur hundruð listamönnum konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn í tæplega fjóra tíma. Ópera, ballet og tónlist var kokteill kvöldsins og meðal gesta voru Margrét Danadrottning og konungsfjölskyldan, ásamt því sem danska þjóðin fylgdist með beinni útsendingu ríkissjónvarpsins. Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra sagði í vígsluræðu að Óperuhúsið myndi auka virðingu Danmerkur. Hann þakkaði auðmanninum Maersk McKinney Møller fyrir gjöfina til dönsku þjóðarinnar en bygging hússins var kostuð af sjóði sem Møller er í forsvari fyrir. Hann er einn af ríkustu mönnum Danmerkur og rekur flutningafyrirtækið Maersk en gáma merkta því fyrirtæki má m.a. sjá á Íslandi. Gjöf sjóðsins er stærsta gjöf einkaaðila til framkvæmda við menningarbyggingu í Danmörku. Arkitekt verksins, Henning Larsen, var þó ekki alltaf sammála Møller og sagði Larsen í viðtali á ríkisstöðinni DR2 á dögunum að oft hefði þurft að grípa til málamiðlana. Arkitektinn sagðist hafa íhugaði að segja sig frá verkinu en að hann hafi ekki getað það vegna samnings síns við Møller. Fyrir þá sem eiga leið til Danmerkur á næstunni má geta þess að frumsýning fyrstu óperunnar, Aidu eftir Verdí, verður 26. janúar. Almennt miðaverð í dönsku Óperuna verður frá 2200 íslenskum krónum upp í 5300. Miðaverð verður hins vegar 75% hærra á Aídu og 200% hærra á fyrstu tvær sýningarnar sem þýðir að þá gæti miðinn farið rétt yfir tíu þúsund kallinn. Sá sem er heppinn getur krækt í ósóttar pantanir en miðar eru löngu uppseldir. Því er svo við þetta að bæta að Kolbeinn Jón Ketilsson tenórsöngvari fer með aðalkarlhlutverkið, Radames, í Óperunni í febrúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×