Erlent

Elsta konan sem eignast hefur barn

Adriana Iliescu, 66 ára gömul rúmensk kona, eignaðist í gær stúlkubarn og er þar með elsta konan til að ganga með og eignast lifandi barn. Tvíburasystir stúlkunnar var andvana fædd, að sögn lækna á Giulesti-fæðingarsjúkrahúsinu í Búkarest. Stúlkunni var komið undir með gervifrjóvgun og tekin með keisaraskurði snemma í gærmorgun, sex vikum fyrir tímann. Henni hefur verið gefið nafnið Eliza Maria, en hún var tæplega 1,45 kíló þegar hún fæddist, um helmingi léttari en gerist og gengur meðal nýbura í Rúmeníu. Hún var sett í fyrirburameðferð og fékk sína fyrstu máltíð síðdegis, nokkra glúkósadropa. Læknar segja að móðirin hafi það gott, en frjóvgun hennar tókst í fyrstu tilraun. Í upphafi bar hún þríbura, en missti eitt fóstrið eftir níundu viku meðgöngu. Engar takmarkanir eru á aldri fólks sem gangast má undir gervifrjóvgun í Rúmeníu. Heimsmetabók Guinness er með á skrá tvær konur sem eignuðust börn 63 ára gamlar, Rósönnu Della Corte í Ítalíu árið 1994 og Arceli Keh í Bandaríkjunum árið 1996.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×