Erlent

Íslensk kennslanefnd til Taílands

Tveir íslenskir tannlæknar og rannsóknarlögreglumaður halda til Phuket-eyju snemma í fyrramálið í því skyni að bera kennsl á lík vestrænna fórnarlamba flóðbylgnanna. Þeir fara á vegum íslenskra stjórnvalda eftir hjálparbeiðni frá Noregi. Mikið starf er enn fyrir höndum við að bera kennsl á þúsundir látinna fórnarlamba hamfaranna. Beiðni barst fyrir skömmu frá norskum yfirvöldum til kennslanefndar Ríkislögreglustjóra um aðstoð við að bera kennsl á látna á Phuket-eyju í Taílandi. Nú er fyrst og fremst þörf fyrir tannlækna. Svend Richter, lektor við tannlæknadeild HÍ, segir Ríkislögreglustjóra hafa lagt fram beiðni til dómsmálaráðherra um að senda tannlækna héðan til Taílands og hann hafi fallist á það í dag. Sveinn mun fara ásamt Sigríði Rósu Víðisdóttur tannlækni en auk þeirra mun Bjarni Bogason rannsóknarlögreglumaður halda utan. Kennslanefnd hefur mikla reynslu á þessu sviði og meðal annars starfaði Svend við að bera kennsl á lík í Kósóvó og í kjölfar mikils ferjuslyss þegar Scandinavian Star brann á Óslóarfriði um 1990. Lík fórnarlamba hamfaranna eru mörg mjög illa farin, m.a. vegna rotnunar. Sigríður segir starfið suðurfrá verða erfitt en þetta sé þó vinna sem þau séu vön að vinna.   Fólkið heldur utan snemma í fyrramálið og verður við störf á Phuket-eyju í sautján daga, eða til 1. febrúar.     54/44



Fleiri fréttir

Sjá meira


×