Erlent

Ferðamenn aftur til Taílands

Ferðamenn eru farnir að tínast aftur til Taílands. Sumir þeirra voru hikandi en þeir hafa verið boðnir hjartanlega velkomnir. Ferðaiðnaðurinn er geysilega mikilvægur fyrir Taíland og hann hrundi, eins og svo margt annað, þegar flóðbylgjurnar skullu á ströndinni. Mörg hótel og veitingahús hreinlega hurfu, önnur skemmdust mikið. Ríkisstjórn Taílands hefur lýst því yfir að uppbygging í ferðaiðnaði sé eitt af forgangsverkefnum hennar. Á þessum árstíma er hótelnýting venjulega yfir níutíu prósent en nú nær hún ekki tíu prósentum. Mikilli herferð hefur verið hrundið af stað til þess að laða erlenda ferðamenn til landsins. Og þeir eru byrjaðir að tínast þangað, sérstaklega til eyjarinnar Phuket sem er rétt undan ströndinni. Eyjan slapp tiltölulega vel frá hamförunum, þar fórust „aðeins“ um 260 manns og skemmdir urðu tiltölulega miklar. Margir aðrir ferðamannastaðir við ströndina eru hins vegar gersamlega í rúst og það mun kosta bæði tíma og mikla peninga að endurreisa þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×