Erlent

Abbas kallar eftir vopnahléi

Mahmoud Abbas, nýkjörinn forseti Palestínumanna, kallaði eftir vopnahléi þegar hann var settur inn í forsetaembættið í morgun. Hann fordæmdi drápin og ofbeldið sem viðgengist hefur í deilu Ísralesmanna og Palestínumanna undanfarin ár og sagði að því yrði að linna ef nokkur möguleiki ætti að vera á friðarviðræðum. Abbas kallaði eftir samvinnu við Ísraela og sagði nauðsynlegt að snúa við blaðinu í samskiptum nágrannaþjóðanna. Rétt áður en Abbas var settur inn í embættið voru sex Ísraelsmenn drepnir á landamærunum að Gasasvæðinu. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, fyrirskipaði í kjölfarið embættismönnum sínum að slíta öll tengsl við nýja ríkisstjórn Palestínumanna þar til hún hefði bundið enda á hryðjuverkaárásir. Sharon hyggst ekki ræða við Abbas fyrr en hann lætur til skara skríða gegn herskáum Palestínumönnum. Við athöfnina í morgun þegar Abbas var settur inn í embættið kallaði hann eftir vopnahléi við Ísraela og viðræðum sem myndu leiða til endanlegs friðarsamkomulags. Hann fordæmdi árásirnar á Ísralesmennina sex í gær og sagði nauðsynlegt að binda enda á þennan vítahring ofbeldis. En áfram heldur ofbeldið - aðeins skömmu eftir athöfnina í morgun skutu ísraelskir hermenn tvo Palestínumenn til bana í austurhluta Gasaborgar í morgun. Háttsettur ísraelskur embættismaður segir að Ísraelsmenn muni áfram bregðast hart við öllum árásum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×