Erlent

Borgarstjórinn í Prag í dulargervi

Borgarstjórinn í Prag klæddist dulargervi á dögunum til þess að minnka útgjöld íslenskra ferðamanna sem heimsækja höfuðborg Tékklands í sumar.  Fjölmargir Íslendingar heimsækja Prag, hina fögru höfuðborg Tékklands, á hverju ári. Og margir þeirra hafa sagt frá ótrúlegu okri leigubílstjóra í borginni. Auðvitað hafa aðrir erlendir ferðamenn orðið fyrir þessu líka en þeir skipta nú minna máli. Svo rammt hefur kveðið að þessu að borgarstjórinn í Prag, Pavel Bem, ákvað að kanna málið sjálfur. Hann klæddi sig í dulbúning og þóttist vera útlendingur. Hann fór svo niður á gamla torgið í miðborginni og tók þaðan leigubíl að Prag-kastalanum en þetta er leið sem ferðamenn fara mjög gjarnan. Og Bem borgarstjóra brá heldur betur í brún þegar hann var krafinn um þrjátíu og fjóra dollara fyrir þessa þriggja kílómetra leið. Það er 500 prósentum yfir skráðum taxta. Leigubílarnir í Prag eru með gjaldmæli en margir bílstjóranna hafa tengt við þá búnað sem margfaldar hraða þeirra ef þeir ýta á takka. Um fjórar milljónir ferðamanna heimsækja Prag árlega þannig að líklega eru leigubílstjórarnir með tekjuhærri mönnum í landinu. Bem borgarstjóri hét því að skera upp herör gegn þessu okri og ráðleggur ferðamönnum að semja fyrirfram um verðið ef þeir taka leigubíl.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×