Erlent

Ótrúlegt hversu duglegt fólk sé

Magnús Norðdahl, sem starfar hjá friðargæslunni í Srí Lanka, segir ótrúlegt hvað fólkið þar sé duglegt að bjarga sér eftir flóðbylgjuna miklu. Hann segir fólk vera að gera sér grein fyrir hversu mikill skaðinn sé. Magnús Norðdahl er í hópi Íslendinga sem búa og starfa á Srí Lanka. Hann starfar hjá friðargæslunni og hefur meðal annars verið á hörmungarsvæðunum á norðurhluta eyjarinnar. Magnús segir ástandið hafa verið skelfilegt á þeim stöðum sem hann hafi komið en erfitt sé að gera sér grein fyrir hversu slæmt það hafi verið. Aðspurður um hvernig fólk í norðuhéruðunum hefði það sagði Magnús að það hefði komið sér mjög mikið á óvart hversu duglegt fólk væri að bjarga sér, hvað það væri fljótt til og stæði vel saman og hjálpaði hvert öðru. Honum hefði líka komið á óvart hversu vel fjölskyldur stæðu saman og hversu hratt alþjóðasamtök sem starfa á svæðinu hefðu brugðist við. Hins vegar sé fólk að gera sér grein fyrir hversu mikið tjónið sé og hversu mikill skaðinn sé fyrir samfélögin á ströndinni. Það komi enn betur í ljós á næstu vikum og mánuðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×