Erlent

Bush en kokhraustur

Eftir að hafa lagt milljarða króna í leit að gereyðingarvopnum í Írak tilkynnti bandaríska ríkisstjórnin á miðvikudaginn að leitinni hefði verið hætt. Þar með er ljóst að fullyrðingar George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, um gríðarlega vopnaeign Íraka áttu ekki við rök að styðjast. Meint gereyðingarvopnaeign Íraka var meginrök Bush fyrir innrásinni í Írak. Í sjónvarpsviðtali við fréttakonuna Barböru Walters sem tekið var upp á miðvikudaginn en sýnt verður á ABC-sjónvarpsstöðinni í kvöld varði Bush ákvörðun sína. "Líkt og margir aðrir Bandaríkjamenn og fólk víðs vegar um heiminn hafði ég það á tilfinningunni að við myndum finna gereyðingarvopn," sagði Bush. "Við verðum að komast að því hvað fór úrskeiðis þegar verið var að safna leynilegum gögnum. Saddam var hættulegur og heimurinn er öruggari nú þegar hann er ekki við völd." Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata á bandaríska þinginu, sagði að Bush þyrfti nú að útskýra það almennilega fyrir fólki hvers vegna hann hefði haft svo rangt fyrir sér í allan þennan tíma. Allt að 1.500 bandarískir hermenn og starfsmenn leyniþjónustunnar hafa síðustu tvö ár leitað að gereyðingarvopnum um allt Írak. Helst hefur verið leitað í verksmiðjum, rannsóknarstofum og á herstöðvum íraska hersins. Bush hefur þegar þakkað Charles Duelfer, yfirmanni bandarísku vopnaleitarinnar, fyrir hans störf. Duelfer mun skila lokaskýrslu um málið í næsta mánuði. Ekki er búist við því að hún muni bæta miklu við bráðabirgðaskýrsluna sem kynnt var síðasta haust, en í henni stóð að engin vopn hefðu fundist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×