Erlent

Annan segir smærri eyjar í hættu

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að eyðileggingin af völdum flóðbylgjunnar í Indlandshafi undirstriki þá hættu sem vofi yfir smærri eyjum vegna breytinga á veðurfari, en óttast er að margar eyjur kunni að fara á kaf í vatn af völdum gróðurhúsaáhrifa og hækkandi hitastigs sjávar. Annan ræddi áhrif náttúruhamfara á smærri eyjar á ráðstefnu sem haldin var í dag á  eyjunni Máritíus skammt frá Madagaskar, undan suðausturströnd Afríku. Fulltrúar 37 smáeyja tóku þátt í ráðstefnunni og lýstu þeir yfir þungum áhyggjum vegna hækkandi yfirborðs sjávar í heiminum. Annan sagði að vegna flóðbylgjunnar í Suðaustur-Asíu þyrftu menn ekki lengur að ímynda sér hvað gæti gerst ef yfirborð sjávar hækkaði enn meira, afleiðingarnar hafi sést í hamfaraflóðunum á öðrum degi jóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×