Erlent

Atvinnulíf þurrkaðist út

Flóðbylgjan sem skall á löndum við Indlandshaf annan dag jóla þurrkaði út allt atvinnulíf í strandhéruðunum á Srí Lanka og víða hefur engin hjálp borist. Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður Stöðvar 2 og Bylgjunnar, hefur verið á ferðalagi um þessi svæði undanfarna daga. Ingólfur segir suðvesturströnd Srí Lanka nánast í rúst. Strax fyrir utan höfuðborgina Kólombó megi sjá eyðileggingu sem fari stigvaxandi eftir því sem nær dragi suðurodda eyjarinnar. Við ströndina hafi áður verið blómleg byggð, ferðamannabæir og fiskiþorp, en ekkert sé eftir nema stöku húsgrunnar og endalausar rústir. Aldan hafi á köflum farið mörg hundruð metra upp á land og ekki skilið neitt eftir. Múrsteinar hafi nánast molnað og steyptir veggir sundrast í frumeindir. Ingólfur segir að það þurfi lítið ímyndunarafl til að geta sér til um örlög þeirra sem urðu fyrir öldunni og lyktin segi víða sína sögu. Eftir standi fólk sem misst hafi allt, fjölskylduna, heimilið og lífsviðurværið. Í Galle, þar sem Ingólfur dvelur, segja hjálparstarfsmenn sömu sögu og annars staðar. Skortur er á lyfjum, einkum sýkllayfjum og sterkum verkjalyfjum, en aðalsjúkrahúsið á staðnum skemmdist mikið í flóðunum og á öðru sjúkrahúsi í grenndinni kláraðist lyfjaskammtur fyrir mánuðinn á sólarhring. Við þetta bætist lost sem margir hafa orðið fyrir, ekki síst börnin sem hræðast nú sjóinn. Ingólfur segir að það eigi eftir að taka drjúgan tíma að hlúa að sárum í sálum fólksins á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×