Erlent

Styðja þann sem Pútín velur

Stærsti stjórnmálaflokkur Rússlands, Sameinað Rússland, ætlar að styðja hvern þann frambjóðanda sem Vladímír Pútín velur til þess að taka við af sér í forsetakosningunum árið 2008. Þessi afstaða flokksins þykir til marks um það ofurvald sem Pútín hefur í rússneskum stjórnmálum. Samkvæmt stjórnarskránni má Pútín ekki sitja nema tvö kjörtímabil í röð. Sameinað Rússland hefur tvo þriðju hluta þingmanna í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins, og talsmaður flokksins segir að hann hafi ekki neinar sérstakar óskir um frambjóðanda en muni fylgja vali Pútíns. Þetta gefur Pútín í raun fræðilegan möguleika á að stjórna Rússlandi til ársins 2020 eða jafnvel lengur. Kjörtímabil forseta er fjögur ár og sem fyrr segir má hann ekki sitja nema tvö kjörtímabil í röð. Pútín gæti hins vegar fundið sér einhvern þægan lepp til þess að sitja í embætti eitt kjörtímabil og boðið sig svo fram aftur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×