Erlent

Svikulir teppahreinsarar í Osló

Eldri borgarar í Osló hafa verið varaðir við tveim svindlurum sem hafa haft stórfé af gömlu fólki fyrir teppahreinsanir. Síðastliðinn þriðjudag hleypti 82 ára gömul kona tveim mönnum inn í íbúð sína, en þeir höfðu bankað upp hjá henni og boðist til þess að hreinsa teppin hjá henni. Mennirnir voru afskaplega þægilegir í framkomu og buðu af sér góðan þokka. Gamla konan settist fram í eldhús og fékk sér kaffibolla meðan teppin voru hreinsuð. Það tók um eina klukkustund og þá afhentu teppahreinsararnir henni reikning upp á 21 þúsund norskar krónur, eða 212 þúsund íslenskar. Gamla konan greiddi það sem upp var sett. Hún lét mennina hafa tvö þúsund norskar krónur sem hún átti í reiðufé og svo ávísun upp á 19 þúsund norskar krónur. Þau kvöddust svo með virktum. Til allrar hamingju hringdi sonur konunnar til hennar um kvöldið til þess að gá hvernig hún hefði það. Hún sagði honum þá meðal annars að hún hefði látið hreinsa teppin hjá sér. Syninum var nokkuð brugðið við að heyra hvað hreinsunin kostaði og gerði þegar ráðstafanir til þess að stöðva ávísunina sem móðir hans hafði skrifað. Jafnframt var send út viðvörun um svindlarana sem munu hafa komið víðar við áður en upp komst um athæfi þeirra. Lögreglan leitar nú þessara dýru hreingerningarmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×