Erlent

Evrópuþing samþykkir stjórnarskrá

Evrópuþingið í Strassborg samþykkti í dag fyrstu stjórnarskrá Evrópusambandsins. Andstaða við stjórnarskrána er hins vegar mikil í mörgum aðildarríkjunum og alls óvíst að þau samþykki hana. Harðar deilur hafa staðið um fyrstu stjórnarskrá Evrópusambandsins og það gekk ekki hávaðalaust fyrir sig að fá hana samþykkta á Evrópuþinginu í Strassborg í dag. Þingmenn sem eru henni andvígir mættu með mótmælaspjöld þar sem þeir hvöttu kollega sína til þess að segja nei. Stjórnarskráin var þó samþykkt með 500 atkvæðum gegn 137, en 40 sátu hjá. Stjórnarskránni er ætlað að einfalda stjórnsýslu í Evrópusambandinu. Meðal annars verður neitunarvald einstakra aðildarríkja fellt niður í mörgum málaflokkum, svo sem í dómsmálum og innflytjendamálum. Evrópuþingið fær meiri völd og einn utanríkisráðherra mun tala fyrir aðildarríkin tuttugu og fimm á alþjóðavettvangi. En björninn er ekki unninn með samþykkt Evrópuþingsins í dag. Aðildarríkin tuttugu og fimm eiga eftir að greiða atkvæði um stjórnarskrána, annaðhvort á þingum sínum eða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það er víða mikil andstaða, til dæmis í Bretlandi og Danmörku, og alls óvíst að stjórnarskráin verði alls staðar samþykkt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×