Erlent

Breiðþota Atlanta flytur birgðir

Hundruð tonna af hjálpargögnum berast daglega til flóðasvæðanna í Asíu. Breiðþota frá flugfélaginu Atlanta tekur þátt í flutningunum en hún flýgur með birgðir til Srí Lanka.. Á alþjóðaflugvellinum í Dúbaí unnu hlaðmenn  hörðum höndum að því að fyllla Boeing-breiðþotuna af hjálpargögnum fyrir fórnarlömb flóðbylgjunnar á Srí Lanka. 106 tonn af neyðargögnum frá Rauða krossinum fóru í flugvélina en í þeirri sendingu voru m.a. tjöld og teppi. Fjöldi íslenskra og erlendra fyrirtækja tók höndum saman um að gefa gögnin og flugið. En hvers vegna koma íslensk fyrirtæki eins og Atlanta að svona verkefni? Arngrímur Jóhannsson flugstjóri segir að þetta sé allt hluti af því alþjóðlega átaki sem allir taki þátt í í dag og það sé þýðingarmikið fyrir fyrirtækið að geta hjálpað til. Arngrímur stýrði vélinni ásamt Gunnari syni sínum og eftir um fjögurra tíma flug frá Dúbaí lenti vélin í Kólombó, höfuðborg Srí Lanka, þar sem fulltrúar Rauða krossins tóku við sendingunni. Innihald hennar er meðal þess sem dreifa á til 400 þúsund Srí Lanka búa sem enn búa við slæman kost og þurfa sárlega á varningnum að halda sem og vatnshreinsibúnaði og hreinlætisvarningi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×