Erlent

Hættir leit að gjöreyðingarvopnum

Bandaríkjamenn eru hættir leit sinni að gjöreyðingarvopnum í Írak. Þetta hafa bandarískir embættismenn staðfest við fréttamenn CNN og BBC sjónvarpsstöðvanna. Áfram verður þó farið í gegnum skjöl sem meðlimir þeirrar sveitar sem leitað hafa að gjöreyðingarvopnum hafa undir höndum. Meint eign Íraka á gjöreyðingarvopnum var ein helsta ástæðan sem gefin var fyrir innrásinni í Írak en þrátt fyrir mikla leit hafa engin gjöreyðingarvopn fundist, önnur en leifar vopna sem framleidd voru á níunda áratugnum. Fyrri yfirmaður bandarísku vopnaleitarsveitarinnar sagði af sér fyrir ári og sagði engin gjöreyðingarvopn að finna í Írak. Eftirmaður hans sagði í bráðabirgðaskýrslu í fyrra að Írakar hefðu ekki átt nein gjöreyðingarvopn þegar innrásin var gerð í Írak en leitast við að hafa tök á því að hefja framleiðslu gjöreyðingarvopna á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×