Innlent

Enn óvíst með atvinnuleyfi

Engin svör fást hjá Vinnumálastofnun við því hvort gengið verði frá atvinnuleyfum í dag fyrir 54 Kínverja sem Impregilo hefur óskað eftir að ráða til starfa. Impregilo ætlar að sækja um leyfi fyrir að minnsta kosti 230 útlendinga. Greinargerð, sem snýr að langstærstum hluta að atvinnuleyfum og almennu viðhorfi ASÍ til starfsmannamála Impregilo, verður lögð fram og rædd á miðstjórnarfundi ASÍ í dag, en samkvæmt ummælum forkólfa sambandsins má búast við að þar sé að finna ýmsar ábendingar og ásakanir á hendur Impregilo. Þá greinargerð fékk félagsmálaráðherra í hendur í fyrrdag en hann mun ekki tjá sig um hana efnislega fyrr en hann hefur fundað með fulltrúum ASÍ. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er það alfarið í höndum Vinnumálastofnunar að gefa út vilyrði fyrir atvinnuleyfum til Kínverjanna sem Impregilo hefur óskað eftir að ráða í vinnu. Fréttastofa fékk þær upplýsingar hjá Vinnumálastofnun að forstjóri hennar, Gissur Pétursson, vildi ekki svara því hvort gengið yrði frá leyfunum í dag eins og rætt hefur verið um. En það eru fleiri sem liggja yfir málefnum tengdum Impregilo þessa dagana. Nefnd ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta tekur til starfa í þessari viku. Hlutverk hennar er að fara yfir þær ásakanir sem fram hafa komið á hendur Impregilo frá því framkvæmdir hófust við Kárahnjúka. Þau mál heyra undir tíu ráðuneyti og til að byrja með mun nefndin kanna hvað heyrir til friðar hvers og eins, komi á daginn að eitthvað sé ekki með felldu varðandi starfsemi Impregilo hér á landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×