Erlent

Einn lést í árás á herjeppa á Gasa

Stefna hins nýja forseta Palestínu varð fyrir áfalli í morgun þegar palestínskir byssumenn gerðu ísraelskum herjeppa fyrirsát í grennd við landnemabyggð gyðinga á Gasaströndinni. Þeir drápu einn landnema og særðu þrjá hermenn. Þetta er ekki mikið mannfall miðað við það sem gengur og gerist  í Miðausturlöndum en hins vegar er þetta fyrsta árásin sem gerð er síðan Mahmoud Abbas vann stórsigur í forsetakosningunum síðastliðinn sunnudag. Abbas hefur lagt á það megináherslu að ofbeldisverkum linni svo hægt sé að segjast að samningaborðinu með Ísraelum. Vegna þessarar stefnu sinnar nýtur Abbas mikils stuðnings á Vesturlöndum, þar á meðal í Bandaríkjunum þar sem George Bush forseti hefur óskað eftir að eiga fund með honum. Abbas og Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hafa einnig náð samkomulagi um að halda samningafund. Þótt árásin í morgun valdi vonbrigðum er ekki hægt að segja að hún komi á óvart. Það er eiginlega fastur liður að þegar einhver vonarglæta virðist um hægt verði að koma friðarferlinu á skrið láta hryðjuverkamenn til sín taka. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort árásin í morgun hefur áhrif á friðarferlið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×