Erlent

David Beckham til liðs við UNICEF

Nýskipaður velgjörðarsendiherra UNICEF, David Beckham, mun taka þátt í sjónvarpsherferð Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna til stuðnings fórnarlömbum flóðanna í löndunum við Indlandshaf. Til að tryggja að þörfum barna verði mætt næstu sex mánuði áætlar UNICEF að það kosti rúma 9 milljarða íslenskra króna. En mörg börn eru munaðarlaus eða hafa orðið viðskila við fjölskyldu sínar og þurfa á mikilli umhyggju og stuðningi að halda. Stuðningur Beckhams mun koma til með að styðja neyðarhjálp og langtíma þróunaraðstoð.  Beckham heimsótti birgðastöð UNICEF í Kaupmannahöfn síðastliðinn mánudag og kynnti sér starfið þar. Birgðarstöðin er mikilvægur hlekkur í neyðaraðstoð UNICEF og gerir það að verkum að UNICEF getur brugðist skjótt við neyðaraðstæðum. Þar eru hjálpargögn pökkuð og send innan 48 tíma til barna sem þarfnast aðstoðar. Á meðal þess sem sent er til flóðasvæðanna eru sérhannaðir sjúkrapakkar, mislingasprautur, vatnshreinsunar-pakkar, skólapakkar og íþróttapakkar.  "Ég, líkt og flestir aðrir, var mjög hreyfður vegna frétta af áhrifum flóðbylgjunnar. Svo ótrúlega margir hafa misst ástvini sína og sérstaklega hafa börn þjáðst mjög þar sem yfir milljón þeirra eru hjálparþurfi og eiga á hættu að fá banvæna sjúkdóma. Fólk hefur sýnt ótrúlegt gjafmildi hingað til og það er mjög áríðandi að fólk haldi áfram að gefa peninga til hjálparsamtaka eins og UNICEF til að leggja sitt af mörkum við neyðaraðstoð og endurbyggingu. Að vera skipaður velgjörðarsendiherra UNICEF er ein af mikilvægustu stundum lífs míns og ég vona að ég geti tekið þátt í að styðja börn í neyð," sagði David Beckham.  Ein af aðaláherslum UNICEF er að koma börnum aftur í skóla eins fljótt og hægt er svo þau geti betur tekist á við áfallið sem hamfarirnar ollu. Íþróttir og leikir eru viðurkennd áfallahjálp fyrir börn sem hafa lent í stríði eða náttúruhamförum og í íþróttapökkunum eru tæki fyrir 40 börn til að taka þátt í leikjum og hópíþróttum. Sem velgjörðarsendiherra mun Beckham leggja sérstaka áherslu á íþróttastarf með börnum  og á mikilvæg áhrif íþrótta til að bæta líf barna, sér í lagi þeirra sem lifa við fátækt, sjúkdóma eða stríð. David Beckham mun deila vitneskju sinni og hæfileikum sem íþróttamaður með sérfræðingum UNICEF í þróun á þessu mikilvæga verkefni. David Beckham hefur stutt við UNICEF í langan tíma en hann var kynntur fyrir UNICEF þegar hann var í Mancester United og hefur félagið safnað rúmlega 1,2 milljón punda fyrir UNICEF í gegnum átakið „United for UNICEF“. Beckham gengur til liðs við fjölmarga vel þekkta velgjörðarsendiherra, þar á meðal íslandsvininn Harry Belafonte, Sir Roger Moore, Miu Farrow, Susan Sarandon, Jeminu Khan, Robbie Williams og Ewan McGregor sem hafa öll gefið tíma sinn og orku til að safna peningum og vekja athygli á störfum UNICEF fyrir hönd barna um allan heim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×