Erlent

Brown vinsælli en Blair

Fylgi breska Verkamannaflokksins myndi aukast verulega ef Gordon Brown fjármálaráðherra tæki við leiðtogahlutverkinu af Tony Blair forsætisráðherra. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem gerð var fyrir dagblaðið The Independent og birt var í gær. Mikið hefur farið fyrir fréttum af deilum Blair og Brown í breskum fjölmiðlum að undanförnu þrátt fyrir að sjálfir hafi þeir reynt að bera þær til baka. Samkvæmt könnun The Independent eru 23 prósent aðspurðra staðráðin í að kjósa Verkamannaflokkinn undir forystu Blair, 31 prósent sögðust hins vegar staðráðin í að kjósa flokkinn ef Brown tæki við leiðtogahlutverkinu. Búist er við að boðað verði til þingkosninga í maí en ár er enn eftir af öðru kjörtímabili Verkamannaflokksins við völd. Blair og Brown funduðu á mánudag með þingmönnum flokksins. Blair hélt ræðu um samstöðu flokksmanna en Brown sat þögull. "Ég veit, eftir samtöl við alla í ríkisstjórninni, að ekkert verður látið flækjast fyrir sameinuðum Verkamannaflokki með sameiginlega sýn og því að tryggja þriðja kjörtímabil Verkamannaflokksins sem þjóðin þarfnast nauðsynlega," sagði Blair að sögn talsmanna hans. Atburðir undanfarinna daga bera einingu flokksins ekki merki. Í nýútgefinni ævisögu Gordon Brown, skrifaðri af Robert Peston blaðamanni Sunday Telegraph, er því haldið fram að Blair hafi heitið Brown því síðla árs 2003 að láta honum eftir leiðtogahlutverkið fyrir næstu kosningar gegn því að Brown styddi sig opinberlega, þá var staða Blair mjög veik vegna innrásarinnar í Írak. Síðan þá hefur Blair sagst ætla að sitja út næsta kjörtímabil og segir Peston að Brown hafi sagt Blair að hér eftir treysti hann engu sem forsætisráðherrann segi sér. Hvort tveggja Blair og Brown hafa vísað þessu á bug. Þá vakti athygli að báðir boðuðu til blaðamannafundar á sama tíma, samstarfsmenn Blair sögðu það mistök en breskir fjölmiðlar segja samstarfsmenn Brown gruna forsætisráðherrann um græsku. Deilurnar og fréttir af þeim virðast þó ekki ætla að reynast flokknum dýrkeyptar. The Times birti í gær könnun sem sýndi Verkamannaflokkinn með 38 prósenta fylgi, Íhaldsflokkinn með 33 prósent og Frjálslynda demókrata með 20 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×