Erlent

Abbas og Sharon ætla að hittast

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, nýkjörinn forseti heimastjórnar Palestínu, ræddust í gær við í síma og samþykktu að funda saman innan skamms. Þó engin dagsetning hafi verið ákveðin er búist við því að fundur þeirra verði haldinn innan hálfs mánaðar. Sharon hringdi í Abbas í gær til að óska honum til hamingju með sigur sinn í kosningunum á sunnudag. Fyrr um daginn hafði Sharon sagt stjórn sinni að hann ætlaði sér að hitta Abbas fljótlega og sagði þeim að markmiðið væri að flýta fyrir nokkrum málum, einkum því að Palestínumenn bindu enda á hryðjuverk gegn Ísraelum. Ný ríkisstjórn Sharons, með þátttöku Verkamannaflokksins og nokkurra flokka strangtrúaðra gyðinga, hlaut samþykki þingsins í gær en með naumindum. 58 þingmenn lýstu stuðningi við stjórnina en 56 andstöðu, meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn stjórninni voru þrettán þingmenn Likudbandalags Sharons.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×